Búist er við að Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) samþykki í næstu viku nýjar reglur um að borgað verði fyrir að láta fiskiskip aðildarríkja sambandsins vera í höfn. Lagt er til að styrkir til sjávarútvegs verði auknir í allt að 2 milljarða evra, sem er tæplega þreföldun á þeim árlegu styrkjum sem nú tíðkast.

Áætlunum ESB er samkvæmt frétt Financial Times ætlað að hvetja eigendur fiskiskipa til að hætta í veiðibransanum frekar en að halda áfram að sigla skipum sínum til veiða. Nauðsynlegt þykir að fækka í fiskiskipaflota aðildarríkjanna.

Sameiginleg fiskveiðistefna ESB-landanna felur í sér kvóta og reglur um útbúnað sem leyfður er á skipum. Framkvæmdastjórn ESB segir fiskiskipaflota aðildarríkjanna vera 40% stærri en hann þyrfti að vera.

Verði nýju reglurnar samþykktar verður aðildarríkjum leyft að borga hverju skipi sem er í höfn allt að 30.000 evrur á mánuði í þrjá mánuði í olíustyrk. Einnig er lagt til að boðnir verði styrkir til fjárfestinga í olíusparandi aðgerðum.