Eignasafn Seðlabanka Íslands hyggur á sölu 103 milljarða króna skuldabréfa. Um er að ræða samningsbundin sértryggð skuldabréf sem upphaflega voru gefin út af Kaupþingi en Arion tók síðar yfir.

Kaupþing lagði bréfin að veði vegna láns sem bankinn fékk frá Seðlabankanum í aðdraganda bankahrunsins árið 2008. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Seðlabanki Íslands sendi frá sér nú klukkan hálffimm.

Í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands segir að markmið ESÍ sé að vinda ofan af félaginu og selja eignir þess. Einn af stærri eignaflokkum ESÍ séu samningsbundin sértryggð skuldabréf sem upprunalega hafi verið gefin út af Kaupþingi banka hf. en síðar yfirtekin af Arion banka hf. Skuldabréfin séu verðtryggð með föstum vöxtum. „Sjóður sem rekinn er af Stefni hf. stendur til tryggingar réttum efndum skuldabréfanna en eignir hans eru að meginhluta fasteignalán en einnig innlán. Arion banki er skuldbundinn til að halda eignastöðu sjóðsins yfir ákveðnum mörkum á meðan skuldabréfin eru útistandandi,“ segir í tilkynningu Seðlabankans.

ESÍ ráðgerir að stofna félög (eða fagfjárfestasjóði) og leggja þeim til eign sína í umræddum samningsbundnum sértryggðum skuldabréfum. Félögin munu gefa út skuldabréf til ESÍ sem ætlunin er að skrá í Kauphöll Íslands.

ESÍ mun í byrjun eiga öll hin nýju skuldabréf en hyggst selja bréfin á allt að fimm árum. Gert er ráð fyrir að fyrsta sala eigi sér stað innan sex mánaða. Áætlun ESÍ gerir ráð fyrir að selja um fimmtung bréfanna á ári. Í tilkynningu frá bankanum segir að sú áætlun kunni að taka breytingum gefi markaðsaðstæður tilefni til. Endanlegar ákvarðanir um magn á hverjum tíma verði teknar að höfðu samráði við seðlabankastjóra í samræmi við eigendastefnu ESÍ.

ESÍ hefur ráðið Summu Rekstrarfélag hf. (www.summa.is) til þess að annast stýringu eigna félaganna og önnur tengd verkefni. Seðlabankinn ætlar að tilkynna fyrirkomulag sölu og nánari útfærslu á útgáfu skuldabréfanna verður tilkynnt síðar.