Hagnaður uppsjávarútgerðarinnar Eskju á Eskifirði á síðasta ári, eftir skatta og gjöld, nam tæplega 742 milljónum króna. Afkoma ársins í fyrra var tæplega 18% betri en árið 2017 en þar spilaði gengismunur stóra rullu.

Velta ársins í fyrra nam tæpum níu milljörðum og jókst um tæplega 1,5 milljarð. EBITDA ársins 2018 var aftur á móti um 300 milljónum minni en árið á undan en þá nam hún 1,4 milljörðum. Gengismunur á síðasta ári var jákvæður um 241 milljón samanborið við neikvæðar 346 milljónir 2017.

Samþykkt var á aðalfundi að greiða hluthöfum 40% hagnaðarins í arð eða rétt tæplega 300 milljónir.

Eignir jukes um 3,5% milli ára, nema tæplega 22,6 milljörðum, og eigið fé jókst um 6,4% og er rúmir 8,3 milljarðar.

Í skýringum við ársreikning félagsins kemur fram að hætt hafi verið við að selja skipið Jón Kjartansson en þess í stað hafi verið ákveðið að selja Guðrúnu Þorkelsdóttur, sem einnig er skip. 780 milljónir króna voru færðar sem fastafjármunir til sölu vegna þessa. Fasteignin Cuxhavengata 1 er sömuleiðis færð sem fastafjármunir til sölu en bókfært virði eignarinnar er tæpar 80 milljónir króna.

Í sumar gerði félagið dómsátt við íslenska ríkið þar sem viðurkennt var bótaskylda þess síðarnefnda vegna úthlutunar á aflaheimildum í makríl árin 2011-14. Upphæð skaðabóta liggur ekki fyrir. Eskja fékk úthlutað 6,57% makrílkvótans en hefði, samkvæmt eigin útreikningum, átt að fá 9,58%, tæplega helmingi meira, hefði lögum verið fylgt.