Sjávarútvegsfyrirtækið Eskja hf á Eskifirði hagnaðist um 10,3 milljónir dollara á árinu 2015, sem að á gengi dagsins í dag myndi nema 1,18 milljörðum íslenskra króna. Það er meiri hagnaður en árið áður, þá hagnaðist fyrirtækið um tæpar 8,3 milljónir dollara.Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2015.

Á árinu 2015 var greiddur arður til hluthafa að fjárhæð  þremur milljónum dollara eða að jafnvirði 345 milljóna fyrir hagnað ársins 2014.

Fram kemur í ársreikningi félagsins að ákvörðun um arðgreiðslu á árinu 2016 vegna rekstrar á árinu 2015 liggur ekki fyrir.

Rekstrarhagnaður ársins 2015 nam rúmlega 14 milljónum dollara og var hann hærri en árið áður, þegar hann nam tæplega 11,6 milljónum dollara.

Eignir félagsins í árslok 2015, námu tæpum 131 milljón dollara og voru því ívið hærri en í árslok 2014, þegar þær námu um 128 milljónum dollara. Eigið fé Eskju nam 44,6 milljónum dollara í lok árs 2015, miðað við 37,3 milljónir dollara í lok árs 2014.

Handbært fé frá rekstri nam tæpum 6,5 milljónum dollara árið 2015 miðað við 3,9 milljónir dollara árið 2014.