Esko Aho, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands, fór víða í erindi sínu á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs, um reynslu Finna af efnahagskreppum og vöktu orð hans mikla athygli. Hann vann hins vegar salinn algerlega á sitt band með lokaorðum sínum. Þar sagði hann að eitt það mikilvægasta sem finnska stjórnin hefði gert eftir að botninn datt úr finnska hagkerfinu í byrjun tíunda áratugarins hafi verið að endurskipuleggja skattaumhverfi fyrirtækja.

Esko Aho.
Esko Aho.

Hann segir að fyrir kreppuna hafi skattar á finnsk fyrirtæki verið háir, en undantekningar og frádráttarmöguleikar margir. Stjórn hans hafi hins vegar lækkað skatta eins mikið og mögulegt var og þurrkað út allar undantekningar og frádrætti. Aho sagði að það hafi verið mjög erfitt að koma þessum lagabreytingum í gegnum þingið, því þingmenn hafi haft af því áhyggjur að skatttekjur ríkisins myndu minnka í kjölfarið. Reynslan hafi hins vegar verið allt önnur og innan tíðar hafi skatttekjur ríkisins af fyrirtækjum tæplega þrefaldast.

„Þessi breyting bjargaði finnska velferðarkerfinu,“ fullyrti Aho.