Matgæðingar frá veitingastaðarleiðarvísinum White Guide Nordic heimsækja á hverju ári veitingastaði í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Íslandi, Færeyjum, Grænlandi og á Svalbarða.  Að þessu sinni eru 325 veitingastaðir frá þessum löndum í leiðarvísinum. Þeim er gefin einkunn og raðað í sæti eftir niðurstöðunni.

Sá veitingastaður sem þykir sé besti á Norðurlöndunum er Esperento í Stokkhólmi. Hann fær samtals 94 stig en er sá eini af veitingastöðunum 325 sem fær fullt hús fyrir matargæði, eða 40 stig. Þess vegna er hann fyrir ofan sænska staðinn Fäviken, sem fær samtals 96 stig en 39 fyrir matargæði. Dill á Hverfisgötu þykir besti veitingastaður Íslands en enginn íslenskur staður kemst á lista yfir 30 bestu veitingastaði Norðurlanda.

Af bestu 30 veitingastöðum Norðurlandanna eru langflestir í Danmörku og Svíþjóð. Á topp þrjátíu listanum eru 14 danskir veitingastaðir, 11 sænskir, 3 norskir og einn frá Finnlandi sem og einn frá Færeyjum. Færeyski veitingastaðurinn Koks í þorpinu Kirkjubæ hefur heldur betur slegið í gegn hjá matgæðingunum, því hann er í 17. sæti af 325 veitingastöðum. Á Koks ræður matreiðslumeistarinn Poul Andrias Ziska ríkjum.

Mest er hægt að fá 100 stig. Einkunnagjöfin er þannig samansett að mest 40 stig er gefin fyrir matargæði, 20 stig fyrir drykki, 20 stig fyrir þjónustu og loks 20 stig fyrir umhverfi og andrúmsloft veitingastaðarins. Eins og sjá má í töflunni, sem fylgir fréttinni, eru tvær tölur fyrir aftan nöfn veitingastaðanna. Fyrri talan er einkunnin sem gefin er fyrir matinn, seinni talan er heildareinkunnin

White Guide Nordic
White Guide Nordic

Nánar er fjallað um bestu veitingastaðina  í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast tímaritið hér .