Ester Sif Harðardóttir hefur verið ráðin forstöðumaður reikningshalds hjá Samkaupum og hóf störf mánudaginn 3. maí síðastliðinn. Hún hefur áður starfað sem forstöðumaður á fjármálasviði Festi, áður N1, á árunum 2016-2020. Þar á undan starfaði Ester sem verkefnisstjóri hjá Deloitte í tíu ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkaupum.

„Við erum hæstánægð með að fá Ester til liðs við okkur. Hún býr yfir mikilli reynslu sem mun nýtast vel í starfi," segir Heiður Björk Friðbjörnsdóttir, framkvæmdarstjóri fjármálasviðs hjá Samkaupum, í tilkynningunni.

Ester er með M.acc. gráðu í reikningshaldi og endurskoðun frá Háskóla Íslands og á að baki yfirgripsmikla reynslu á sviði fjármála. Hún hefur undanfarna mánuði starfað við rekstrarráðgjöf og aðstoðað fyrirtæki við að auka skilvirkni í reikningshaldi með uppbyggingu ferla og sjálfvirknivæðingu.

„Það eru spennandi tímar framundan hjá okkur í Samkaupum og mörg verkefni framundan. Það er mikill fengur að fá Ester í hóp okkar ágæta starfsfólks og við bjóðum hana hjartanlega velkomna í hópinn," segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdarstjóri mannauðsmála hjá Samkaupum, í tilkynningunni.

Hjá Samkaupum starfa um 1.400 manns í 700 stöðugildum, en félagið rekur yfir 60 verslanir víðs vegar um landið undir vörumerkjunum Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland.