*

miðvikudagur, 22. september 2021
Fólk 26. maí 2021 11:51

Ester Sif ráðin til Samkaupa

Ester Sif Harðardóttir er nýr forstöðumaður reikningshalds hjá Samkaupum en hún var áður forstöðumaður á fjármálasviði hjá Festi.

Ritstjórn
Ester er nýr forstöðumaður reikningshalds hjá Samkaupum.
Aðsend mynd

Ester Sif Harðardóttir hefur verið ráðin forstöðumaður reikningshalds hjá Samkaupum og hóf störf mánudaginn 3. maí síðastliðinn. Hún hefur áður starfað sem forstöðumaður á fjármálasviði Festi, áður N1, á árunum 2016-2020. Þar á undan starfaði Ester sem verkefnisstjóri hjá Deloitte í tíu ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkaupum.

„Við erum hæstánægð með að fá Ester til liðs við okkur. Hún býr yfir mikilli reynslu sem mun nýtast vel í starfi," segir Heiður Björk Friðbjörnsdóttir, framkvæmdarstjóri fjármálasviðs hjá Samkaupum, í tilkynningunni. 

Ester er með M.acc. gráðu í reikningshaldi og endurskoðun frá Háskóla Íslands og á að baki yfirgripsmikla reynslu á sviði fjármála. Hún hefur undanfarna mánuði starfað við rekstrarráðgjöf og aðstoðað fyrirtæki við að auka skilvirkni í reikningshaldi með uppbyggingu ferla og sjálfvirknivæðingu. 

„Það eru spennandi tímar framundan hjá okkur í Samkaupum og mörg verkefni framundan. Það er mikill fengur að fá Ester í hóp okkar ágæta starfsfólks og við bjóðum hana hjartanlega velkomna í hópinn," segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdarstjóri mannauðsmála hjá Samkaupum, í tilkynningunni.

Hjá Samkaupum starfa um 1.400 manns í 700 stöðugildum, en félagið rekur yfir 60 verslanir víðs vegar um landið undir vörumerkjunum Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland.

Stikkorð: Samkaup