Ísraelska fjártæknifyrirtækið eToro hefur samþykkt að fara á markað í gegnum öfugan samruna við skráð Spac félag. Fyrirtækið er metið á 10,4 milljarða dala, eða um 1.328 milljarða íslenskra króna, við samrunann.

Fyrirtækið starfrækir stafræna verðbréfamiðlun ásamt miðlun fyrir rafmyntir. Notendur eToro eru yfir 20 milljónir talsins, þar af voru fimm milljónir notenda sem skráðu sig á síðasta ári. Notendafjöldinn jókst um eina milljón í janúar síðastliðnum, á sama tíma og Gamestop æðið hófst. Tekjur eToro jukust um 147% árið 2020 en fyrirtækið áætlar að tekjurnar verði yfir einum milljarði dala í ár.

Etoro mun sameinast Fintech Acquisition Corp V, Spac (Special Purpose Acquisition Companies) félagi sem var stofnað af bankajöfrinum Betsy Cohen.

„eToro er með stafrænan vettvang sem gerir nýjum fjárfestum kleyft að læra og herma eftir reyndari fjárfestum,“ er haft eftir hinni 79 ára Betsy Cohen í frétt Yahoo .

Þátttaka almennra fjárfesta á mörkuðum vestanhafs hefur aukist verulega með tilkomu ýmissa stafrænna vettvanga líkt og eToro og Robinhood. Talið er að hlutdeild einstaklinga af öllum viðskiptum á mörkuðum vestanhafs hafi meira en tvöfaldast frá upphafi heimsfaraldursins og sé meiri en 20% í dag, samkvæmt UBS Equity Research. „Það er klárlega hafinn fullkominn stormur,“ segir Yoni Assia, stofnandi og forstjóri eToro.

„Við erum eini alþjóðlegi miðlarinn sem býður verðbréfaviðskipti án þóknana í yfir hundrað löndum. Markaðir eru í sögulegum hæðum og við erum að sjá talsverða aukningu í eftirspurn meðal nýrra kynslóða sem vilja fjárfesta í bandarískum hlutabréfum.“

2021 strax orðið metár hjá Spac félögum

Það hefur farið fyrir Spac félögum, einnig kölluð „opin tékka“ (e. open cheque) félög, á síðustu misserum. Alls hafa slík félög safnað 79,4 milljörðum dala á fyrstu þremur mánuðum ársins sem er meira en á öllu síðasta ári þegar þau sóttu 79,3 milljarða dala, samkvæmt Financial Times . Samtals hafa 264 Spac félög verið stofnuð í ár, samanborið við 256 félög árið 2020.

Sjá einnig: Grab í stærsta Spac samruna sögunnar

Viðskiptablaðið sagði nýlega frá því að Aurora Acquisition Corp., sem Björgólfur Thor Björgólfsson leiðir, lauk 220 milljóna dollara frumútboði fyrr í mánuðinum. Tilgangur félagsins er sagður vera fjárfestingar í skráðum tækni- og fjölmiðlafyrirtækjum og félögum af því tagi sem stefna á skráningu á markað.