Bréf Etsy hækkuðu um allt að 11% fyrir opnun markaða í kjölfar þess að Elon Musk sendi frá sér stutt tíst um að hann elskaði svolítið Etsy. Fór verð bréfanna hæst í 232,39 Bandaríkjadali á eftirmarkaði, en lokaverðið fyrir lokun markaða vestan hafs í gær var 208,81 dalir. Þegar þetta er skrifað er verðgildi bréfanna á eftirmarkaði 18,61%, eða 8,91% hærra en lokaverðið.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í ársbyrjun er þetta ekki í fyrsta sinn sem bréf félaga hafa tekið skarpan kipp eftir meðmæli Musk, þó í það skipi hafi verið um nafnarugling að ræða.

Etsy er bandarísk vefverslun sem sérhæfir sig í handunnum og gömlum vörum, og á að virka eins og hefðbundnari útimarkaðir þar sem fólk selur alls kyns eigin vörur. Musk fylgdi fyrra tísti sínu eftir með því að hann hefði keypt handprjónaða húfu fyrir hund sinn í stíl Marvin the Martian og sýndi jafnframt mynd af henni.

Sama dag hækkaði greiningardeild fjárfestingarbankans Jefferies matsvirði sitt á bréfum félagsins úr 205 Bandaríkjadölum í 245 en bankinn segir markaðstorg Etsy „halda áfram að vaxa umfram hefðbundnar netverslanir“ af því er Bloomberg segir frá.

Miðað við lokaverð bréfa félagsins á mánudag hefur verð fyrirtækisins vaxið um nærri 560% frá því að bréf þeirra fóru lægst í mars, vegna aukinnar netverslunar á meðan á kórónuveirufaraldrinum hefur staðið.

Bréf félagsins Signal Advance, sem fjárfestar töldu að Musk væri að mæla með eru nú komin niður í 4,92 dali, eftir 21,28% lækkun á mörkuðum í gær, en bréf félagsins fóru hæst í 38,70 dali 11. janúar í kjölfar tísts Musk.