Amber International, Landsbanki Luxembourg SA, Straumur-Burðarás og Landsbanki Íslands hf. eru ekki skyld til að taka Actavis yfir, að sögn Viðars Más Matthíassonar, formanns Yfirtökunefndar.

Samanlagt eru þessir hluthafar með tæplega 60% í félaginu, en samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti myndast yfirtökuskylda við 40% eignarhlut skyldra aðila. Amber á 35% í Actavis, Landsbanki Luxembourg 10,3% fyrir hönd annarra fjárfesta, Straumur-Burðarás á 8,1% og Landsbanki Íslands hf. 5,6%, en þar af er rúmlega helmingur fyrir hönd annarra fjárfesta.

"Nefndin hefur áður kannað tengsl Straums og Landsbanka Íslands. Við höfum ekki getað staðreynt að þau eignatengsl fullnægi þeim skilyrðum sem 37. gr. laga um verðbréfaviðskipti gera til tengdra aðilja og þess vegna verða hlutir þeirra ekki taldir saman. Við höfum heldur ekki getað tengt aðra saman þannig að yfirtökuskylda hafi talist myndast í félaginu," segir Viðar Már.

Amber International er fjárfestingafélag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, en eignarhaldsfélag hans, Samson, á 40% í Landsbankanum. Landsbanki Luxembourg, sem er í eigu Landsbankans, á 15% hlut í Straumi-Burðarási. Fjárfestingarfélagið Grettir á einnig 15% í Straumi-Burðarási, en helstu eigendur Grettis eru Landsbankinn, Tryggingamiðstöðin og Sund.

Þá spurði Viðskiptablaðið Viðar Má hvort eignarhaldsfélagið Samson hefði yfirtökuskyldu í Landsbankanum, en félagið á rúmlega 40% hlut í bankanum. "Já, Samson er með meira en 40% hlut í Landsbankanum," segir Viðar. "Samson var yfir 40% þegar breytingin á verðbréfaviðskiptalögunum tók gildi 1. júlí 2005. Af því leiðir að um félagið gildir bráðabirgðaákvæðið í lögunum, þ.e. það verður ekki yfirtökuskylt fyrr en það fer yfir 45%. Samson hefur síðan þá átt á bilinu 40-45% í Landsbankanum og því ekki orðið yfirtökuskylt," segir Viðar Már.