„Menn eru einfaldlega að losa eignir, þetta er það sem bankar eru að gera út um allan heim,“ segir Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON í samtali við Viðskiptablaðið en fyrr í dag var tilkynnt að viðræður við Íbúðalánasjóð um sölu á hluta af íbúðalánum SPRON að verðmæti 20 milljarða króna væru á lokastigi.

„Þetta er ekki stærsti hluti lána okkar en þetta mun að sjálfssögðu styrkja frekar lausafjárstöðu bankans,“ segir Guðmundur en sala íbúðalánanna hefur engin áhrif á eiginfjárstöðu SPRON.

Aðspurður segir hann að lausafjárstaða bankans sé þó almennt góð en miðað við það árferði sem nú ríkir sé mikilvægt að efla hana enn frekar.

Guðmundur segir að allir finni fyrir núverandi ástandi á mörkuðum en SPRON muni leita allra leiða til að koma til móts við viðskiptavini sína til að hjálpa þeim að greiða úr sínum málum.