Um helgina var gefinn út tölvuleikur í Bandaríkjunum sem fjallar um innrás málaliða inn í Venesúela en tilgangur í leiknum sjálfum er að steypa harðstjórn Venesúela af stóli að sögn Reuters fréttastofunnar.

Eins og kunnugt er andar nokkuð köldu milli Hugo Chavez, forseta Venesúela og stjórnvalda í Washington og segir viðmælandi Reuters að slíkir tölvuleikir séu ekki til að bæta ástandið.

Þó Hugo Chavez komi hvergi fyrir í leiknum segja kunnugir að hann sé augljóslega fyrirmyndin að Ramon Solano, einræðisherranum og harðstjóranum sem leikurinn gengur út á að koma frá völdum.

Leikurinn ber nafnið Mercenaries 2: World in Flames en það er Electronic Arts Inc sem gefur út leikinn en í tilkynningu vegna útgáfunnar kemur fram að tilgangur leiksins sé að „eyðileggja“ Venesúela.

Í lýsingu leiksins kemur fram að „valdagráðugur harðstjóri“ noti olíu Venesúela til að taka völdin í landinu og breytir því í ófriðarsvæði. Það þurfi „málaliðarnir“ að binda endi á og varpa harðstjóranum af stóli.

Leikurinn var þó fyrst kynntur til sögunnar árið 2006 – eða í það minnsta hugmyndir af honum – og Electronic Arts viðurkenndi að hann væri í þróun.

Talsmaður Hugo Chavez sakaði fyrirtækið um að hafa fengið gögn frá bandarískum yfirvöldum þar sem lagður er grunnur að hernaðaraðgerðum í landinu.

„Allur málatilbúnaður og æsingur í kringum þennan leik er hlægilegur,“ sagði Jeff Brown, talsmaður Electronic Arts.

„Við skulum ekki gleyma því að þetta er bara fjárans tölvuleikur.“

Hugo Chavez er fyrrverandi hermaður en hann reyndi að taka völdin í landinu með valdi árið 1992. Það var þó ekki fyrr en 1998 sem hann var kosinn forseti en síðan þá hafa samskiptin við stjórnvöld í Washington farið versnandi, þá helst á s.l. árum.

Hann hefur hvað eftir annað sakað bandarísk stjórnvöld um að undirbúa áætlanir til að steypa honum af stóli.