"Þetta er eins og að hitta gamlan vin," sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra á stuttum blaðamannafundi með Javier Solana, fulltrúa Evrópusambandsins á sviði sameiginlegu utanríkis- og öryggismálastefnunnar.

Geir og Solana sögðust meðal annars hafa rætt málefni Kosovo og Íran. Þeir ræddu einnig öryggismál og aðspurðir sögðust þeir sömuleiðis hafa rætt aukin hernaðarumsvif Rússa á norðurslóðum. Solana sagði að ESB ætti góð samskipti við Rússa.

Geir sagði á blaðamannafundinum að Solana hefði verið mikill vinur Íslands frá því hann hefði verið framkvæmdastjóri NATO. Þeir hefðu fyrst hist árið 1996. Þetta væri því eins og að hitta gamlan vin.

Dagskrá Geirs er þéttskipuð í dag. Hann snæðir nú hádegisverð með Jose Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Í fylgdarliði Geirs eru: Bolli Þór Bollason ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, Sturla Sigurjónsson ráðgjafi í utanríkismálum, Illugi Gunnarsson þingmaður og Gréta Ingþórsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra.