Heimildarmynd um Alfreð Elíasson og Loftleiðir eftir Sigurgeir Orra Sigurgeirsson verður frumsýnd á morgun, föstudaginn 8. maí í Sambíóunum Kringlunni

Fyrirtækið var stofnað á lýðveldisárinu 1944 og varð fljótlega eitt stærsta fyrirtæki landsins og það stærsta áður en yfir lauk.

„Þetta er viðskiptasaga Íslands á 20. öldinni,“ segir Sigurgeir Orri í samtali við Viðskiptablaðið.

„Þarna koma þrír ungir menn með flugpróf og litla fjögurra sæta flugvél frá Kanada og hefja rekstur. Þessi saga sýnir hversu langt menn geta náð með dugnaði og samheldni, þeir einfaldlega neituðu að gefast upp.“

Sigurgeir Orri segir að Alfreð og félagar hafi starfað í svipuðu viðskiptaumhverfi og nú ríkir en fljótlega eftir að Loftleiðir var stofnað skall á kreppa og viðskiptahöft jukust. Þá sveiflaðist gengi krónunnar verulega en að sögn Sigurgeirs Orra héldu Alfreð og félaga baráttunni samt áfram.

„Þá, eins og nú var erfitt að reka fyrirtæki en þeir gáfust ekki upp og börðust áfram,“ segir Sigurgeir Orri.

„Þessi saga er án efa hvatning til Íslendinga í dag. Þeir byrjuðu með tvær hendur tómar, unnu allan sólarhringinn kauplaust vitandi það að árangurinn myndi sýna sig síðar – sem hann svo gerði.

Sigurgeir Orri byrjaði að vinna að myndinni í og með í nokkur ár. Hann hafði áður unnið að framleiðslu þátta um sögu 20. aldar og þáttur Loftleiða vakti þar athygli hans. Í kjölfarið las hann ævisögu Alfreðs Elíassonar (skrifuð af Jakob F. Ásgeirssyni) og hóf undirbúning að framleiðslu myndarinnar. Árið 2004 hafði hann samband við fjölskyldu Alfreðs og óskaði eftir samstarfi við gerð myndarinnar. Sigurgeir Orri segir að fjölskyldan hafi tekið sér vel og hann hafi síðan þá átt gott samstarf með henni við gerð myndarinnar.