„Þetta eru örlög sem ég hef ekki kosið mér," segir Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, þegar hann er spurður hvort hann sé enn formaður Evrópunefndar forsætisráðuneytisins.

Illugi var skipaður formaður Evrópunefndarinnar ásamt Ágústi Ólafi Ágústssyni, varaformanni Samfylkingarinnar, fyrir um það bil ári. Þáverandi stjórnarflokkar vildu með nefndarstarfinu beina Evrópusambandsmálum í ákveðinn farveg.

Ný ríkisstjórn hefur líka sett ESB-málin í nefnd og segir í tilkynningu frá ritara nefndarinnar í dag, Sturlu Sigurjónssyni, starfsmanni forsætisráðuneytisins, að nefndin hafi ákveðið að kalla eftir afstöðu samtaka, stofnana og fyrirtækja til aðildar Íslands að ESB.

Illugi segist munu ræða framhald starfa sinna fyrir nefndina við forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. „Þetta er mér ekki fast í hendi," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Í verkefnaáætlun nýrrar ríkisstjórnar segir að Evrópunefndin eigi að ljúka störfum við úttekt á viðhorfum hagsmunaaðila til Evrópusambandsins og skila skýrslu 15. apríl 2009.