Þetta eru tímamót fyrir íslenska markaðinn," segir Þórður Friðjónsson, forstjóri NASDAQ OMX kauphallarinnar á Íslandi, um að samruni kauphallarsamstæðunnar OMX, sem rekur kauphallir á Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum, og bandarísku kauphallarinnar NASDAQ er um garð genginn. Nánar tiltekið 27. febrúar síðastliðinn.

Þórður er kominn með talsverða reynslu af því að samþætta íslensku kauphöllina við stóra erlenda kauphöll, því við lok árs 2006 sameinaðist Íslenska kauphöllin OMX kauphallarsamstæðunni. Auk þess sem Bandaríkin eru nýkomin inn á kauphallar-landakortið hjá íslensku fyrirtækjunum, kemur einnig inn kauphöllin í Dubai, sem er ört vaxandi markaður, í krafti þriðjungs eignarhlutar NASDAQ samstæðunnar.

„NASDAQ er gríðarlega sterkt merki, eitt af þeim vörumerkjum í heiminum, sem er efst á lista. Jafnframt fylgir þessu ákveðinn gæðastimpill, að vera hluti af þessu fyrirtæki, sem hefur vegnað gríðarlega vel á undanförnum árum. Sýnileikinn og fjöldi þeirra sem geta fylgst með markaðnum gjörbreytist við þennan samruna. Þannig felast gríðarlega mikil sóknarfæri í þessum samruna," segir Þórður.

Þórður er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu í dag.