Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir að stjórnarflokkarnir hafi lýst því yfir að þeir muni fara að niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um væntanlegan aðildarsamning Íslands að Evrópusambandinu.

„Þetta verður að sjálfsögðu bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla því enginn flokkur með virðingu fyrir sjálfum sér mun taka þá stefnu að leggjast á Alþingi gegn samningi sem þjóðin hefur samþykkt," segir hann.

Alþingi ályktaði sem kunnugt er í síðustu viku að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Daginn eftir gekk Guðmundur Árni Stefánsson, sendiherra Íslands í Stokkhólmi, á fund ráðuneytisstjóra sænska utanríkisráðuneytisins og afhenti umsókn Íslands.

Sænsk stjórnvöld fara með formennsku í ráðherraráði ESB og fór Össur utan í dag, miðvikudag, til Svíþjóðar til að ræða við Carl Bildt utanríkisráðherra um næstu skref.

Össur vonast til þess að umsóknin verði rædd á fundi utanríkisráðherra ESB í Brussel 27. júlí nk. en þegar þetta er skrifað liggur ekki fyrir hvort Össur mætir sjálfur einnig á ráðherraráðsfundinn. Það ræðst á fundinum með Bildt.

Ekki bundnir samkvæmt lögum

Í ályktun Alþingis segir að halda eigi  þjóðaratkvæðagreiðslu um væntanlegan aðildarsamning. Tillaga sjálfstæðismanna um að hún yrði bindandi samkvæmt lögum var felld.

Í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar Alþingis er áréttað að „þó að þjóðaratkvæðagreiðsla af þessu tagi væri eingöngu leiðbeinandi er vandséð að farið yrði á móti skýrum vilja þjóðarinnar," segir þar.

„Það að atkvæðagreiðslan sé leiðbeinandi merkir það eitt að hún sé ekki bindandi að lögum. Verður að telja fullvíst að slík þjóðaratkvæðagreiðsla væri þá pólitískt bindandi fyrir flesta ef ekki alla stjórnmálaflokka og kjörna fulltrúa," segir enn fremur í nefndaráliti meirihlutans.

Nánar er rætt við Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra í Viðskiptablaðinu sem kemur út í kvöld.