Tryggingafélagið Euler Hermes hefur tilkynnt birgjum að það muni ekki tryggja viðskipti þeirra við nokkrar verslunarkeðjur sem eru í eigu Baugs. Fram kemur í frétt á vef breska blaðsins The Independent að tryggingafélagið hafi tekið þessa á ákvörðun í kjölfar þess að Glitnir riðaði til falls og var bjargað af íslenska ríkinu.

The Independent segir að viðræður milli Euler Hermes og Baugs um ákvörðunina muni halda áfram í þessari viku. Fram kemur í frétt blaðsins að Atradius, sem er stærsta fjártryggingafélag Bretlands, hafi tekið sambærilega ákvörðun og segja heimildamenn The Independent að þar á bæ séu forviða út af ákvörðuninni.

Talsmaður Baugs segir við The Independent að menn séu undrandi yfir ákvörðuninni og telji að hún sé tilkominn vegna ákveðins misskilnings á áhrifum efnahagsástandsins á Íslandi á starfsemi félagsins. Fyrirtæki á borð við Euler Hermes tryggja félög gegn þeim skaða sem verður þegar mótaðilar þeirra standa ekki í skilum.

Ef að ekki er unnt að útvega slíkar tryggingar kann til að mynda rísa upp sú staða að birgjar neiti hreinlega að eiga í viðskiptum við ákveðnar verslanir eða þá að skilmálar viðskiptanna versna.