Eurodisney skemmtigarðurinn í Frakklandi hefur fengið 1,3 milljarða evru lán frá móðurfyrirtækinu Walt Disney Company í Bandaríkjunum. Jafngildir það um 205 milljörðum íslenskra króna. Markmiðið með lánveitingunni er að veita franska fyrirtækinu rúm til að endurfjármagna stóran hluta skulda sinna, sem nú nema um 1,7 milljarði evra.

Á fyrri helmingi ársins var Eurodisney rekið með 100,8 milljóna evra tapi, sem er aukning um 21 milljón evra frá sama tíma í fyrra. Í kjölfarið lýsti fyrirtækið því yfir að það gæti þurft að grípa til niðurskurðar eða eignasölu til að bregðast við rekstrarvandanum. Með aðstoð móðurfélagins hafa vaxtagreiðslur Eurodisney verið lækkaðar um 45 milljónir evra.