Alþjóðlega fjármálatímaritið Euromoney hefur valið Íslandsbanka besta bankann á Íslandi annað árið í röð. Einnig hefur Íslandsbanki verið valinn besti fjárfestingabankinn á Íslandi. Þetta er í fyrsta sinn sem verðlaun eru veitt í þeim flokki hér á landi. Euromoney útnefnir árlega bestu bankana í tæplega 100 löndum og veitir þeim viðurkenninguna Awards for Excellence .

Fram kemur í tilkynningu frá Íslandsbanka að Euromoney leit til ýmissa þátta í rekstri íslensku bankanna við val sitt, m.a. arðsemi eigin fjár, gæði lánasafns, árangur í hagræðingu og markaðshlutdeildar á ýmsum þjónustuþáttum og sviðum . Einnig var litið til hlutdeildar í nýskráningum og veltu á mörkuðum við val á besta fjárfestingabankanum.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir í tilkynningu vera stolt yfir því að bankinn skuli vera valinn besti banki landsins annað árið í röð. „Einnig gleður það okkur að vera valinn besti fjárfestingabankinn á Íslandi en með sterkum fjárfestingabanka tekur bankinn þátt í enduruppbyggingu íslensks fjármálamarkaðar,“ segir hún.