Tímaritið Euromoney hefur valið Íslandsbanka besta bankann á Íslandi, að því er kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Euromoney útnefnir árlega bestu bankanna víða um heim og veitir þeim viðurkenninguna Awards for Excellence.

Í tilkynningunni segir að tímaritið hafi í leit sinni litið til ýmissa þátta í rekstri íslensku bankanna við val sitt, meðal annars arðsemi eigin fjár, árangur í uppbyggingu nýs banka og vaxtar efnahagsreiknings á milli ára. Þá tiltekur Euromoney að Íslandsbanki hafi sterk eiginfjár- og innlánahlutföll en jafnframt sýnt frumkvæði í að auka fjölbreytni í fjármögnun bankans með útgáfu sértryggðra skuldabréfa.

Í tilkynningunni er haft eftir Birnu Einarsdóttur bankastjóra að bankinn hafi frá stofnun lagt áherslu á skýra markmiðasetningu með þátttöku starfsfólks og viðskiptavina. Árangur þeirrar vinnu sé að skila sér og það sé afar ánægjulegt að eftir því skuli vera tekið.