Eigandi evrópsku kauphallarsamstæðunnar Euronext, Intercontinental Exchange, áformar að selja um 33% hlut til fjármálafyrirtækja, stofnana, fagfjárfesta og skrá hluta af fyrirtækinu á markað. Væntanlegir kaupendur eru BNP Paribas, ABN Amro, Euroclear og Société Générale, að því er fram kemur í breska dagblaðinu Financial Times . Kaupendurnir fá lítilsháttar afslátt af útboðsgengi.

Intercontinental Exchange er bandarískt fyrirtæki og segir í Financial Times að með viðskiptunum nú komist reksturinn á ný í hendur Evrópubúa. Fyrirtækið er nú hluti af bandaríska markaðnum NYSE.

Í kjölfar sölu á hlut í Euronext er á teikniborðinu að skrá markaðinn í kauphöll í París, Amsterdam og í Brussel. Horft er til skráningar á markað í Portúgal fyrir árslok.