Evrópska kauphöllin Euronext og kauphöllin í New York (NYSE) hafa boðist til að hefja viðræður við kauphallirnar Deutsche Börse og Borsa Italiana um kaup á verðbréfasviði þeirra, en það er talið benda til þess að sameining Euronext og NYSE sé erfiðleikum háð, segir í frétt Financial Times.

Tilboðið kemur í kjölfar þess að Deutsche Börse hefur sent samkeppnisyfirvöldum Evrópusambandsins beiðni um leyfi til að mynda Evrópska kauphöll með samruna við Euronext.

Ráðgjafar Euronext segja að atlaga Deutsche Börse sé óvinveitt, en Euronext hefur alla tíð neitað samruna við þýsku kauphöllina. Euronext hefur meðal annars gefið upp þá ástæðu að samkeppnisyfirvöld muni ekki leyfa samrunan, sem nú mun reyna á, segir í fréttinni.

NYSE og Euronext munu bjóða Deutsche Börse og Borsa Italiana eitt sæti hvorri í 22 meðlima stjórn sameinaðs fyrirtækisins, en 11 stjórnarmeðlima yrðu frá hvorri heimsálfu.

Deutsche Börse segir að tilboðið veki ekki áhuga sinn. NYSE og Euronext telja að þetta fyrirkomulag muni verða fjármálamarkaði Evrópu til bóta og að það muni einnig bæta viðskipti milli heimsálfanna. Talsmenn Euronext telja að samruni við NYSE muni verða hvort sem hinar evrópsku kauphallirnar taki þátt eða ekki, segir í fréttinni.

Borsa Italiana hefur áður hafnað að taka þátt í samruna við NYSE og Euronext og samþykkti stjórn bankans að frekar yrði leitað eftir sameiningu kauphallanna þriggja innan Evrópu.