Fagtímaritið The European Banker segir í grein um íslenska bankakerfið að bankarnir séu næmir fyrir áhættuþáttum innanlands og vitnar í greinargerð matsfyrirtækisins Fitch Ratings.

Tímaritið, sem sérhæfir sig í umfjöllun um banka og fjármálastofnanir, segir í greininni að helstu veikleikar íslensku bankanna séu hve háðir þeir eru skuldabréfamörkuðum og að gengisáhætta sé töluverð. Einnig er bent á að skuldir bankanna séu of miklar miðað við eignir þeirra.

Íslensku viðskiptabankarnir þrír hafa gert lítið úr gengisáhættu og sumir hafa hagnast á veikingu krónunnar, en flestir sérfræðingar eru sammála um að skertur aðgangur að erlendum fjármálamörkuðum geti haft verulega óþægileg áhrif á bankana.

Fitch Ratings birti skýrslu um íslensku bankana í febrúar og sagði að þrátt fyrir veikleika bankanna væru horfur þeirra stöðugar,

Fyrirtækið breytti horfum fyrir lánshæfismat ríkissjóðs Íslands úr stöðugum í neikvæðar fyrr í febrúar.

Fyritækið staðfesti lánhæfismat Kaupþings banka (A), Landsbanka Íslands (A), Íslandsbanka (A) og Straums-Burðaráss (BBB-).

Fitch segir sterka eigin fjárstöðu bankanna vega upp á móti ójafnvæginu og verðbólguþrýstingi í íslenska hagkerfinu. Einnig bendir matsfyrirtækið á að lánsafn bankanna er dreift á milli landa og 35-70% af safninu eru lán til erlendra fyrirtækja, segir Fitch.

?Fitch mun áfram fylgjast náið með þróun ójafnvægis í íslenska hagkerfinu og hvernig íslensku bankarnir taka á þróuninni," segir matsfyrirtækið.