Vitur maður sagði eitt sinn: „Íslendingar skiptast í tvo hópa, þá sem hlakka til söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva og þá sem svo hírast með tilhlökkun sína bak við luktar dyr og þykkt tjald af afneitun.“ Þrátt fyrir að margir lýsi yfir óþoli sínu á keppninni tala áhorfstölur sínu máli og þjóðin safnast saman eina örlagaríka kvöldstund ár hvert og vonar að loksins sé komið að okkur – að við fáum loksins að leggja inn veglega summu í Gleðibankann og halda keppnina á Íslandi!

Þrátt fyrir 29 ára harmsögu án sigra er ljóst að íslenski Eurovision-aðdáandinn mun aldrei gefast upp. Við höldum áfram að trúa því að í ár sé árið og því er löngu orðið tímabært að spyrja spurningarinnar: Hvar eigum við að halda keppnina árið 2018? Ráð- um við yfirhöfuð við það? Hvað munu herlegheitin kosta? (Allur er jú varinn góður).

18,5 milljarða keppnishald

Það er ekki ofsögum sagt að Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sé með sitt eigið hagkerfi sem ferðast borg frá borg ár hvert. Keppnin krefst gjarnan mikilla fjárfestinga í keppnislandinu í húsnæði fyrir keppnina, innviðum, tækjabúnaði, útsendingu o.fl. Í kjölfarið verða til hundruð starfa og tugþúsundir glamúrþyrstra ferðamanna sækja gestaþjóðina heim með tilheyrandi tekjum fyrir þjóðarbúið og landkynningu. En mörgum svíður hinn mikli kostnaður við keppnina og því vakna reglulega umræður um ávinning fjárfestingarinnar, ef hann er yfirhöfuð einhver.

Nokkrir breskir hagfræðingar tóku sig nýverið til og reiknuðu út hversu miklum fjármunum síðustu fjórir gestgjafar eyddu í hátíðarhöldin og var það niðurstaða þeirra að borgirnar hefðu samtals eytt um 129 milljónum punda eða sem nemur tæpum 18,5 milljörðum íslenskra króna á núvirði.

Misjöfn fjárútlát

Úttekt hagfræðinganna sýnir að yfirvöld í Aserbaídsjan og höfuðborginni Bakú eyddu mestu af löndunum fjórum þegar keppnin var haldin í landinu árið 2012, eða sem nemur 48 milljónum punda. Vó þar þyngst bygging hinnar glænýju Baku Crystal Hall, sem sérstaklega var hönnuð fyrir viðburðinn. Í beinum tengslum við keppnina og undirbúning hennar urði einnig til 529 full störf, sem er töluvert meira en gengur og gerist. Þegar þjóðhagsleg arðbærni keppninnar er metin er gjarnan reynt að rýna í þau langtímaáhrif sem hljótast til að mynda af hinni miklu landkynningu sem gestaþjóðin hlýtur.

En í ákveðnum tilvikum er sú kynning alls ekki að öllu leyti jákvæð og það fengu Aserar sérstaklega að finna á eigin skinni mánuðina fyrir keppnina. Alþjóðleg mannréttindasamtök notuðu tækifærið til að vekja athygli umheimsins á mannréttindabrotum ríkisstjórnar Ilhams Aliyev forseta, þá sérstaklega gegn tjáningar- og fjölmiðlafrelsi. Eins var ríkisstjórnin gagnrýnd harðlega fyrir að bera fólk út af heimilum sínum svo hægt væri að rýma fyrir nýjum mannvirkjum í nágrenni Baku Crystal Hall. Vandamál ríkisstjórnarinnar náðu loks ákveðnu hámarki þegar nágrannaþjóð þeirra, Íran móðgaðist yfir keppnishaldinu og hátt settir klerkar tóku að mótmæla því sem þeir kölluðu heiðurshátíð samkynhneigðra. Deilan olli því að endingu að Íranar kölluðu sendiherra sinn heim frá Baku. Hvort allt þetta hafði mikil áhrif á ferðamannastraum í kringum keppnina skal ósagt en ferðamannatekjurnar urðu hins vegar sérstaklega litlar það árið eða aðeins um 7 milljónir punda. Nokkuð sem var sérstaklega óheppilegt í ljósi þess að keppnin var sú dýrasta í áraraðir.

Eurovison 2012-15
Eurovison 2012-15
© vb.is (vb.is)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.