Á vef breska tímaritsins Euroweek er fjallað um lánshæfiseinkunnir íslensku bankanna og alþjóðleg matsfyrirtæki sögð pynta þá. Bent er á að ekki liggi skýrt fyrir hvað bankarnir þurfi að gera til að fá betra lánshæfismat og rökstuðningur Standard & Poor´s fyrir lánshæfiseinkunn Glitnis gagnrýndur, og matsfyrirtækið sagt byggja einkunina að of miklu leyti á vangaveltum um framtíðina.

„Í hvert skipti sem matsfyrirtækin biðja íslensku bankana, Glitni, Kaupþing og Landsbankann, að gera eitthvað gera þeir það - aðeins til að vera sagt að gera eitthvað annað og meira,“ segir í umfjöllun Euroweek.

Á mánudag tilkynnti Standard & Poor´s að fyrirtækið ætlaði að halda neikvæðum horfum á +BBB lánshæfiseinkunn Glitnis. Þar með heldur matsfyrirtækið áfram að færa þau markmið sem Glitnir þarf að ná til að hækka matið, samkvæmt Euroweek, en bankinn búi við það að sama hvað hann geri til að bera gagnrýni til baka sé góðri lánshæfiseinkunn haldið rétt utan seilingar hans.

Tilraunir til að þóknast matsfyrirtækjum koma í bakið á bönkunum

Í umfjöllun Euroweek er bent á að til að byrja með hafi lánshæfiseinkunnir bankanna lækkað þegar matsfyrirtækið Fitch benti á það í febrúar 2006 að íslensku bankarnir treystu um of á fjármögnun með erlendum lántökum.

Bankarnir hafi brugðist við þessu með því að fjármagna starfsemi sína í auknum mæli með innlánum, t.d. Landsbankinn og Kaupþing með netreikningum sínum.

Þegar lánsfjárkreppan hófst svo síðasta sumar hafi einkunnir bankanna liðið fyrir það að þeir fjármögnuðu sig með innlánum viðskiptavina, sem talin er „viðkvæm“ (e. volatile) leið til fjármögnunar. Viðbrögð bankanna við gagnrýni hafi því komið í bakið á þeim.

Undarleg rök Standard & Poor´s

Euroweek bendir á að í skýrslu Standard & Poor´s sé bent á sterka lausafjárstöðu Glitnis, en matsfyrirtækið hefur áhyggjur af að orðspor bankans á erlendum mörkuðum geti orðið til þess að hann lendi í vandræðum með öflun lausafjár í framtíðinni og þurfi þá að ganga á lausaféð. Þar með gæti lausafjárstaðan veikst. Glitnir hafi hins vegar það sem af er þessu ári getað orðið sér úti um fjármagn til rekstrar.

„Hvaða banki gæti ekki lent í slíkum vandræðum?“ spyr greinarhöfundur Euroweek. „Þetta kann að vera satt og rétt hjá Standard &Poor´s, en hversu skynsamlegt er að láta lánshæfismat Glitnis líða fyrir órökstuddar pælingar um að bankinn geti ekki gert það í framtíðinni, þ.e. aflað lausafjár, sem hann sannaði nýlega að hann getur?“