Engar flugferðir til Íslands verða í boði hjá þýska lággjaldaflugfélaginu Eurowings næsta sumar, að því er kemur fram í frétt á vefnum turisti.is. Undanfarin ár hefur flugfélagið flogið hingað til lands frá Þýskalandi og þegar mest lét bauð félagið upp á Íslandsferðir frá fimm þýskum borgum.

Í svari félagsins við fyrirspurn frá blaðamanni Túrista er ekki gefin skýring á þessari ákvörðun Eurowing. Ferðum félagsins hingað til lands hafi hins vegar farið fækkandi og síðasta sumar var einungis flogið frá tveimur þýskum borgum.

„Samkvæmt talningu Túrista þá flugu þotur Eurowings hingað 55 ferðir í sumar og gera má ráð fyrir að um borð hafi verið að minnsta kosti sex til sjö þúsund þýskir ferðamenn. Það lætur þá nærri að félagið hafi flutt um tíunda hvern Þjóðverja sem hingað kom í sumar en Eurowings var eitt um flugið hingað frá Köln en í samkeppni við Icelandair í Hamborg um farþega á leið til Íslands.

Af bókunarvél Icelandair að dæma þá sjá stjórnendur þess tækifæri í að fjölga ferðum sínum til Hamborgar næsta sumar úr sjö í níu í viku. Sú viðbót vegur þá upp á móti brotthvarfi Eurowings þegar litið er til fjölda ferða. Hins vegar er hátt í helmingur farþega Icelandair að jafnaði tengifarþegar á meðan þotur Eurowings voru næsta víst nær eingöngu skipaðar ferðafólki á leið til Íslands.

Samkvæmt heimildum Túrista þá hefur forsvarsfólk annars umsvifamikils flugfélags verið tvístígandi varðandi Íslandsflug á næsta ári,“ segir enn fremur á vef Túrista.