Eva Dögg Guðmundsdóttir og Starkaður Örn Arnarson hafa verið ráðin til Creditinfo að því er kemur fram í tilkynningu frá félaginu.. Þau hafa nú þegar hafið störf hjá félaginu, Eva Dögg sem markaðsstjóri og Starkaður Örn sem forstöðumaður vöru- og verkefnastýringar.

Starkaður hefur starfað við verkefnastýringu- og vöruþróun í upplýsingatæknigeiranum í um 15 ár. Áður starfaði hann sem verkefnastjóri í Stafrænni framtíð hjá Arion banka og við ráðgjafa- og sérfræðistörf hjá Skýrr, nú Advania. Starkaður er með meistaragráðu í verkefnastjórnun (MPM) frá Háskóla Íslands og B.Sc. í viðskiptafræði frá sama skóla.

Eva Dögg hefur starfað að markaðs- og kynningarmálum bæði hérlendis og erlendis síðastliðin 15 ár. Eva starfaði áður hjá Marel við verkefnastýringu og þar áður vann hún sem viðskiptastjóri hjá auglýsingastofunni Jónsson & Lemacks. Eva er með diplóma í markaðshagfræði og frumkvöðlafræði frá Niels Brock viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn og stundaði nám í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík.

„Það er virkilega ánægjulegt að fá tvo öfluga liðsmenn til Creditinfo. Það eru spennandi tímar í upplýsingageiranum og reynsla og þekking Evu og Starkaðar mun klárlega styrkja uppbyggingu félagins hér heima og erlendis,” er haft eftir Brynju Baldursdóttur, framkvæmdastjóra Creditinfo í tilkynningunni.