Eva Dögg Sigurgeirsdóttir hefur verið ráðin sem verkefnastjóri og sérfræðingur í rafrænni markaðssetningu fyrir BIOEFFECT, en það er dótturfyrirtæki ORF Líftækni.

Eva Dögg starfaði sem markaðsstjóri Smáralindar um árabil en undanfarin fimm ár hefur hún ritstýrt afþreyingarvefmiðlinum Tíska.is auk þess að sinna markaðssetningu, verkefna- og viðburðarstjórnun fyrir ýmis fyrirtæki.

Eva lauk MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2011. Eva Dögg er gift Bjarna Ákasyni framkvæmdastjóra og á fjögur börn.

Hjá ORF Líftækni og dótturfyrirtæki þess starfa nú um 40 starfsmenn en fyrirtækið þróaði nýstárlega aðferð til að framleiða verðmæt, sérvirk prótein sem eru notuð í húðvörurnar BIOEFFECT og til líf- og læknisfræðirannsókna víða um heim.