*

mánudagur, 25. október 2021
Fólk 13. október 2021 11:37

Eva Dröfn fyrsti starfsmaður UAK

Eva Dröfn Hassell Guðmundsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri Ungra athafnakvenna og er þeirra fyrsti starfsmaður.

Ritstjórn
Eva Dröfn segir það mikinn heiður að vera ráðin fyrsti starfsmaður Ungra athafnakvenna.
Aðsend mynd

Eva Dröfn Hassell Guðmundsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri Ungra athafnakvenna (UAK). Eva Dröfn verður fyrsti starfsmaður samtakanna, en hún er með LL.M. gráðu í alþjóðarétti frá Háskólanum í Amsterdam og hefur meðal annars sinnt rannsóknarstörfum fyrir Reykjavíkurborg. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Til viðbótar með LL.M. gráðuna er Eva Dröfn með BSc í PPLE sem er þverfagleg heiðursgráða í stjórnmálafræði, sálfræði, lögfræði og hagfræði, viðbótarnám í kynjafræði. Auk rannsóknarstarfa fyrir velferðarsvið Reykjavíkurborgar er hún í tilkynningunni sögð hafa unnið markvisst að mannréttindum og kynjajafnrétti á hinum ýmsu sviðum.

Tilefni ráðningarinnar er sögð aukin umsvif félagsins, ekki síst vegna þátttöku UAK í Global Goals World Cup.

,,Það er mikill heiður að vera ráðin sem fyrsti starfsmaður Ungra athafnakvenna og mjög gaman að geta lagt þeirri mikilvægu starfsemi lið. Það er einstaklega gefandi að vinna með jafn kraftmiklum hópi ungra kvenna með það að leiðarljósi að stuðla að jafnrétti og hugarfarsbreytingu í samfélaginu,” er haft eftir Evu Dröfn.

Andrea Gunnarsdóttir, formaður UAK, segir ánægjulegt að fá Evu Dröfn til liðs við félagið. ,,Árið 2020 hlaut Eva Dröfn tilnefningu UAK og síðar kjör sem Ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði kynjajafnréttis. Því starfi hefur Eva Dröfn sinnt af miklum metnaði og ástríðu og hefur sýnt það og sannað að hún er öflugur leiðtogi með sterka sýn á framþróun jafnréttismála. Við erum afar ánægðar að fá að njóta starfskrafta hennar á þeirri vegferð sem félagið er”.