Jón Þórisson, arkítekt og tengiliður Evu Joly á Íslandi, vill leiðrétta fréttatilkynningu Geysis Green Energy en þar segir að Eva Joly sé ráðgjafi sérstaks saksóknara. Jón segir að þegar Eva Joly sagði í yfirlýsingu á fundi í Norræna húsinu að sala á HS Orku gæfi tilefni til sérstakar sakamálarannsóknar þá var hún ekki lengur ráðgjafi sérstaks saksóknara.

„ Geysir Green Energy vísar á bug ummælum ráðgjafa sérstaks saksónara þess efnis að sala á hlut félagsins í HS Orku gefi tilefni til sérstakrar sakamálarannsóknar,” segir í fréttatilkynningu frá Geysi Green Energy.

Margt sem þarfnast skoðunar

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Jón að margt í málinu þarfnist skoðunar. „Á fundinum sem haldinn var í gær bentum við á að Ross Beaty, forstjóri Magma, hefur sagt í erlendum fjölmiðlum að jarðhiti sé eilífur. Að það sé hægt að vinna jarðhita úr orkusvæðum í þúsund ár. En eins og fram kom á málþingi sem við héldum í síðustu viku þá er hægt að tæma svæði líkt og Svartsengi eða Reykjanes á 50 árum. Þar vísa ég til rannsókna Stefáns Arnórssonar vísindamanns,” segir Jón.

„Á heimasíðu Magma kynna þeir fyrir fjárfestum áform sín á Íslandi og telja að hægt sé að nýta hér 400 megavött. En það er ekki í neinu samræmi sem íslenskir vísindamenn telja, t.d. þeir Stefán Arnórsson og Sigmundur Einarsson. Þeir telja að að með góðum vilja væri hugsanlega hægt að fá 100 megavött. Sú tala á við allt Reykjanesið, einnig þau svæði sem Magma hefur engan aðgang að.“

Telur Magma blekkja markaðinn

Jón segir að erfitt sé að fá upplýsingar um hverjir eiga Magma Energy. „Á heimasíðu þeirra má sjá að Ross Beaty á um 40% hlut. Síðan er þarna flokkur sem kallaður er „institutional investors“ með um 30% hlut. En það vekur athygli að allir stjórnarmenn í Magma eru starfsmenn félagsins. Við veltum því fyrir okkur hvers vegna aðrir hluthafa hafa ekki fengið stjórnarsæti,“ segir Jón. „Okkur þykir þetta óeðlilegt og við viljum gjarnan fá skýringar á þessu. Við viljum vita hverjir þessir fjárfestar eru.“

Jón telur að Magma blekki markaðsaðila með því að halda því fram að hér sé hægt að fá 400 megavött. „Þeir telja að fyrirtækið hafi aðgang að fjórfalt meiri orku en þeir í raun hafa. Að auki halda þeir því fram að þetta sé einhver eilífðarvél. Þetta er ekki í neinu samræmi við raunveruleikann. Verð hlutabréfa byggir á væntingum um framtíðartekjur félagsins. Ég get því ekki kallað þetta annað en blekkingar,“ segir Jón.