Eva Sóley Guðbjörnsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Icelandair Group. Hún tekur við af Boga Nils Bogasyni sem tók við starfi forstjóra félagsins í desember sl.

Eva Sóley hefur umfangsmikla reynslu af stjórnun, rekstri og fjármálum, á Íslandi og á alþjóðavettvangi, bæði í skráðum og óskráðum félögum. Hún starfaði sem framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Advania á Íslandi frá árinu 2015 og sem framkvæmdastjóri þjónustu- og rekstrarsviðs fyrirtækisins frá maí 2018. Áður starfaði hún sem forstöðumaður á fjármálasviði hjá Össuri, eða á árunum 2014 til 2015, þar sem hún stýrði fjárfestatengslum og tók þátt í stefnumótandi verkefnum. Þá starfaði hún sem sjálfstæður ráðgjafi og fjárfestir frá 2012 til 2014.

Eva Sóley hóf starfsferil sinn í fjármálageiranum og starfaði hjá Kaupþingi banka í mörg ár, meðal annars í fjárstýringu, eigna- og skuldastýringu, fjármögnun, á fyrirtækjasviði og í fyrirtækjaráðgjöf. Á árunum 2008 til 2009 starfaði hún sem framkvæmdastjóri hjá skilanefnd Kaupþings og sem fjármálastjóri frá 2009 til 2011.

Hún hefur setið í stjórnum ýmissa félaga og var varaformaður bankaráðs Landsbankans á árunum 2013 til 2016. Í dag situr hún í stjórn Júpíters rekstrarfélags og í stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands. Eva Sóley er verkfræðingur að mennt, með B.Sc. í hagverkfræði og hagfræði sem aukagrein og M.Sc. í fjármálaverkfræði frá Columbia University í New York. Þá hefur hún jafnframt lokið námi í verðbréfaviðskiptum. Hún er gift Hilmari Rafni Kristinssyni og eiga þau tvö börn.

Eva Sóley mun hefja störf hjá Icelandair Group um miðjan febrúarmánuð og tekur þá jafnframt sæti í framkvæmdastjórn félagsins.