Eva Dögg Guðmundsdóttir hefur verið ráðin viðskiptastjóri (e. Account Manager) hjá auglýsingastofunni Jónsson & Lemacks.

Fram kemur í tilkynningu frá auglýsingastofunni að Eva starfaði síðast sem framkvæmdastjóri hjá hugmyndahúsinu Döðlur þar sem hún var jafnframt meðeigandi. Hún stýrði þar m.a. stefnumörkun í markaðs- og kynningarmálum fyrir viðskiptavini, vöruþróun og stefnu í stafrænum miðlum.

Árin 2006 til 2012 starfaði hún sem deildarstjóri og sérfræðingur í markaðsdeild Landsbankans þar sem hún vann að ímyndarmörkun og markaðsmálum fyrir m.a. fyrirtækjasvið, eignastýringu, fjármálaráðgjöf og erlendar starfsstöðvar og dótturfélög.

Hún starfaði sem rekstrarstjóri Gallerí i8 árið 2005, sem almannatengill hjá Spalt Communicare í Kaupmannahöfn árin 2003 og 2004 og var einn stofnenda markaðsráðgjafarstofunnar Fabrik í Kaupmannahöfn árið 2001. Árin 1999 til 2001 starfaði hún sem aðstoðarmaður hjá Thomas Lykke, markaðs- og innanhússritstjóra Wallpaper Magazine, í London og Kaupmannahöfn.

Eva er með diplóma í markaðshagfræði og frumkvöðlafræði frá Niels Brock viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn og hefur stundað nám í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík.