Leikjaframleiðandinn CCP hefur ákveðið að aflýsa EVE Fanfest , sem fara átti fram í Hörpu í Reykjavík 2.-4. apríl, vegna kórónuveirunnar ( COVID -19). Í fréttatilkynningu vegna málsins segja skipuleggjendur hátíðarinnar ákvörðunina erfiða en nauðsynleg í ljósi aðstæðna. Hjá ýmsum alþjóðlegum fyrirtækjum séu nú í gildi takmarkanir á lengri ferðalögum starfsmanna.

„Eftir ítarlega greiningu á áhrifum þessara ráðstafana á skráða þátttakendur á Fanfest , sem og þeirri staðreynd að margir spilarar EVE sem sæki hátíðina komi um langan veg og frá öllum heimshornum, hafi verið ljóst að óhjákvæmilegt væri að hætta við hátíðina í ár. Ákvörðunin hafi verið tekin að vandlega íhuguðu máli," segir í tilkynningunni.

Í tilkynningu, sem CCP hefur sent spilurum EVE Online, segir að eflaust muni þessi ákvörðun valda einhverjum þeirra vonbrigðum en þeir muni vonandi sýna aðstæðunum skilning.

Þetta hefði verið í 15. sinn sem EVE Fanfest færi fram. Hátíðin nýtur mikilla vinsælda um heim allan og var búist við um þúsund spilurum alls staðar að úr heiminum hingað til lands.