Erlendir gestir EVE Fanfest hátíðar og ráðstefnu CCP, sem fram fer í Hörpu dagana 1.-3. maí, eru byrjaðir að streyma til landsins. Alls er búist við um 1.500 erlendum gestum á hátíðina að þessu sinni. Alls er búist við að um 3.000 manns sæki hátíðina um helgina.

EVE Fanfest fagnar tíu ára afmæli sínu í ár og er dagskráin einkar vegleg af því tilefni. Spilarar tölvuleiksins EVE Online eru stærsti hluti hátíðargesta EVE Fanfest, en áskrifendur leiksins í dag eru rúmlega 500 þúsund. Þeir spilarar sem ekki komast til Íslands geta fylgst með dagskrá hátíðarinnar í gegnum beina útsendingu í gegnum netið, en yfir 280.000 manns um allan heim horfðu á útsendinguna í fyrra.

Rúmlega 80 erlendir blaðamenn koma á hátíðina í ár frá ýmsum heimshornum, þar á meðal Bandaríkjunum, Evrópu og Kína, Mest frá tækni- og tölvuleikjamiðlum en líka frá sumum stærstu dagblöðum og fjölmiðlum Evrópu og virtum fjármálatímaritum. Meðal annars eru hér fréttamenn frá  BBC, Sky News, Forbes, Guardian, The Telegraph, Business Times og Spiegel.