*

miðvikudagur, 25. nóvember 2020
Innlent 24. mars 2012 19:10

EVE Online heldur áfram að mala gull fyrir CCP

Þrátt fyrir að áherslan þessa vikuna hafi verið á nýja leikinn frá CCP er staða gamla flaggskipsins ennþá sterk.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

Flaggskip CCP, EVE Online, heldur áfram að mala gull fyrir fyrirtækið, en spilarar eru nú alls um 400.000 talsins, en þá eru spilarar í Kína taldir með. Gera áætlanir ráð fyrir því að þessi tala verði komin í um 500.000 í lok þessa árs. Á meginklasanum, þ.e. þar sem allir aðrir en Kínverjar spila, eru spilarar um 360.000 talsins, sem er eilítið undir því sem mest var í fyrrasumar. Spilurum fækkaði eitthvað síðasta haust vegna óánægju með nýjustu viðbótina við leikinn, en Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, segir að aukin áhersla á EVE og meiri kraftur í þróun á leiknum hafi skilað sér í aukinni ánægju spilara og að fjöldi þeirra nálgist nú fyrri hæðir.

Ársreikningur fyrir árið 2011 liggur ekki fyrir, en þó hefur komið fram að velta fyrirtækisins í fyrra nam um 66 milljónum dala, sem er umtalsverð aukning frá árinu 2010, þegar veltan nam 57 milljónum dala. Starfsemi CCP er þess eðlis að rekstrarkostnaður þarf ekki að aukast í takt við aukna veltu, en þó er ómögulegt að slá á hugsanlegan hagnað fyrirtækisins í fyrra af veltutölunum einum saman. Þriðji leikurinn, World of Darkness, er enn í vinnslu hjá fyrirtækinu og vinna 60 manns í Bandaríkjunum enn að þróun leiksins, en það er þó mun minni hópur en vann að honum fyrir skipulagsbreytingarnar í haust.

Stikkorð: CCP Eve Online