Samfélag spilara íslenska fjölspilaraleiksins EVE Online er til umfjöllunar í ítarlegri grein í karlatímaritinu Playboy , sem kom út í byrjun mánaðarins. Umfjöllunarefni greinarinnar er bandaríski diplómatinn Sean Smith, sem var einn fjórmenninganna sem féllu í árás hryðjuverkamanna á ræðismannsskrifstofu Bandaríkjanna í líbísku borginni Benghazi þann 11. september í fyrra.

Sean Smith var einnig mjög virkur spilari í EVE Online og var yfirmaður þess sem kalla má utanríkisþjónustu spilarahópsins Goonswarm. Hann og undirmenn hans í leiknum höfðu það hlutverk að semja við aðra spilarahópa um hernaðarbandalög, vopnahlé, viðskiptasamninga og annað því líkt. Spilarar EVE Online þekktu Smith undir nafninu Vile Rat og var hann virtur og vinsæll meðal spilaranna.

Í greininni er rætt við ættingja Smith og kemur þar fram að hann tók vinnu sína fyrir utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna mjög alvarlega og hafði ástríðu fyrir starfinu. Honum þótti starfið mikilvægt og var sannfærður um að með því væri hann að bæta heiminn, t.d. með því að breiða lýðræðishugmyndir til svæða og ríkja þar sem ekki hefur mikið farið fyrir lýðræði hingað til.

Starfið var hins vegar ekki alltaf auðvelt, til dæmis á þeim tímabilum sem árásir á „græna svæðið“ í Bagdad voru sem harðastar. Vinir hans í EVE urðu vanir því að heyra hann kvarta á kaldhæðnislegan hátt yfir sprengjuárásunum. „Helvítis sprengjuvörpur,“ skrifaði hann eitt kvöldið í spjallið í leiknum.

EVE var ákveðin leið fyrir hann til að taka sér hlé frá amstri dagsins og svo fór að hann ákvað að nota reynslu sína úr utanríkisþjónustunni í leiknum. Hann tók yfir samskipti Goonswarm út á við og kom upp hópi diplómata innan leiksins. Vinir hans segja að hann hafi líka lagt sig fram um að hjálpa þeim, sem hann taldi búa yfir réttum hæfileikum, í gegnum umsóknarferlið hjá utanríkisráðuneytinu.

Þann 11. september í fyrra var hann að spjalla við vini sína í EVE og lýsti fyrir þeim ástandinu fyrir utan ræðismannsskrifstofuna. „Við sáum einn af „lögreglumönnunum“ sem gæta byggingarinnar taka myndir,“ skrifaði hann. Skömmu síðar bættust orðin „fuck“ og „skothríð“ við. Það var það síðasta sem vinir hans sáu frá honum.