*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 30. september 2014 14:10

EVE Online kemur út á frönsku

Sjötta tungumálið bætist við EVE Online, tölvuleik CCP, í dag.

Ritstjórn

Í dag kemur EVE Online, fjölspilunartölvuleikur CCP, út á frönsku. Leikurinn kom upphaflega út á ensku en síðan hafa fleiri tungumál bæst við, en leikurinn hefur verið fáanlegur undanfarin ár á rússnesku, þýsku, kínversku og japönsku. Núna bætist því við sjötta tungumálið.

Til að kynna franska útgáfu EVE Online stendur CCP fyrir samkomu fyrir blaðamenn og spilara leiksins í París á fimmtudaginn. Í tengslum við hana verður sett upp sýning á myndefni og listaverkum úr heimi leiksins og video-verkið Day in the Universe, sem sýnt var á Museum of Modern Art (MoMA) í New York í fyrra, verður þar í fyrsta sinn sýnt fyrir utan New York. Verkið sýnir sýnir leikjaheim EVE Online og var gert með þátttöku þúsunda EVE spilara um heim allan.

“Við erum mjög ánægð að færa frönskumælandi spilurum tölvuleikja þann einstaka leikjaheim sem EVE Online hefur upp á að bjóða. Í dag erum við með öflugt samfélag EVE Online spilara í Frakklandi og það verður athyglisvert að sjá hvernig það bregst við með þessari viðbót við leikinn og auknum fjölda frönskumælandi spilara,” segir Andie Nordgren, framleiðslustjóri EVE Online.

Stikkorð: CCP EVE Online