*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 12. nóvember 2019 09:28

EVE Online kemur út á kóresku

Forstjóri CCP kynnir kóreska útgáfu leiksins á einum stærsta tölvuleikjaviðburði heims í Suður-Kóreu á föstudaginn.

Ritstjórn
Hilmar Veigar Pétursson er forstjóri CCP.
Haraldur Guðjónsson

Tölvuleikur CCP, EVE Online, kemur út á kóresku síðar í þessari viku. Með útgáfunni opnast einn stærsti og þróaðasti tölvuleikjamarkaður heims fyrir CCP og EVE Online en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um keypti kóreska félagið Pearl Abyss CCP fyrir um ári, en endanlegt verð var talið í sumar vera um 250 milljónir Bandaríkjadala.

Í tlefni útgáfu EVE Online á kóresku verður Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, einn aðalræðumanna G-Star ráðstefnunnar í Busan, Suður-Kóreu. Kóresk útgáfa EVE Online kemur út sama dag og ráðstefnan hefst, fimmtudaginn 14. nóvember, og munu rúmlega tvö hundruð þúsund gestir hennar þar fá tækifæri til að prófa og keppa í EVE Online.

Með kóreskri útgáfu EVE Online fá EVE spilarar í Japan, Ástralíu og Nýja Sjálandi fleiri leikmenn til liðs við leikinn á sínu tímabelti í Asíu og Kyrrahafi, en löndin hafa í dag á að skipa samfélagi öflugra EVE spilara sem oft eiga erfitt með að spila við fólk annarstaðar í heiminum á hentugum tíma.