Í gær, fimmtudaginn 28.júní, kom sértök forútgáfa af nýrri kínverskri útgáfu EVE Online út í Kína. Útgáfan er liður í samstarfi CCP og TianCity, eins stærsta framleiðanda og dreifingaraðila tölvuleikja í Kína, við endurútgáfu og markaðssetningu leiksins fyrir Kínamarkað samkvæmt tilkynningu frá CCP.

Eftir því sem fram kemur í tilkynningunni er gert ráð fyrir almennri útgáfu á EVE Online í Kína seinna á þessu ári. Forútgáfan sem nú kemur út er liður í að gaumgæfa að öll tæknileg atriði séu í lagi og að netþjónar standist það álag sem almennu útgáfunni mun fylgja.

CCP opnaði starfsstöð í Shanghai árið 2006. Árið 2008 hófst vinna þar við nýjan tölvuleik fyrirtækisins, DUST 514, og nú starfa þar nú um 100 manns við þróun DUST 514, sem einnig er væntanlegur á markað síðar á þessu ári, og kínverska útgáfu EVE Online.

Kína er einn stærsti tölvuleikjamarkaður heims og netleikir eru þar í mikilli sókn, samhliða aukinni netvæðingu landsins. CCP hefur starfrækt EVE Online í Kína frá árinu 2006 , í samvinnu við dreifingaraðilann Optic Communications, þar sem leikurinn hefur vaxið jafnt og þétt, auk þess sem fyrirtækið hefur öðlast mikilvæga reynslu á kínverska leikjamarkaðinum. Samningur CCP við stærri og öflugri dreifingaraðila, og sú þróunarvinna sem hefur átt sér stað á bakvið nýja kínverska útgáfu af leiknum, er í samræmi við áform CCP um aukna sókn á Kínamarkað.

EVE Online er nú fáanlegur á ensku, rússnensku, þýsku, kínversku - og japönsku í kjölfar útgáfu CCP á leiknum í Japan í fyrra í samvinnu við leikjaútgefandann og dreifingaraðilann NEXON. Þetta þýðir að CCP starfrækir leikinn á móðurmáli 4 af 5 stærstu markaðssvæða leikja í heiminum (sjá fyrir neðan).