Í dag kemur kínversk útgáfa fjölspilunarleiks CCP EVE Online út. Útgáfan er liður í samstarfi CCP og TianCity, eins stærsta framleiðanda og dreifingaraðila tölvuleikja í Kína, um endurútgáfu og markaðssetningu leiksins fyrir Kínamarkað.

Í tilkynningu frá CCP kemur fram að í tengslum við útgáfu EVE Online í Kína og velgengni nýjustu viðbótar leiksins, Retribution, sem kom út í síðustu viku, hefur CCP slegið nýtt met í fjölda áskrifenda EVE Online. Í fyrsta sinn í níu ára sögu leiksins hefur fjöldi áskrifenda hans farið yfir 450.000 markið.

CCP hóf sölu áskriftarleiða að kínverskri útgáfu EVE Online fyrir 7 dögum og hefur sala áskrifta þegar farið fram úr væntingum að því er segir í tilkynningunni.

CCP hefur starfrækt EVE Online í Kína frá árinu 2006, í samvinnu við dreifingaraðilann Optic Communications, þar sem leikurinn hefur vaxið jafnt og þétt. Samningur CCP við stærri og öflugri dreifingaraðila, og sú þróunarvinna sem hefur átt sér stað á bakvið nýja kínverska útgáfu af leiknum, er sögð í samræmi við áform CCP um aukna sókn á Kínamarkað.