Spilarar EVE Online tölvuleiks CCP hafa safnað 68.340 bandaríkjadollurum, eða rúmlega 8,9 milljónum íslenskra króna, í neyðaraðstoð fyrir fórnarlömb jarðskjálftans í Nepal frá því söfnun meðal þeirra hófst um síðustu mánaðarmót. Söfnunin fer alfarið fram í leiknum sjálfum og lýkur á miðnætti þann 24. maí. Söfnunarféð rennur óskipt til Rauði krossins á Íslandi, sem nú stendur fyrir víðtækri söfnun fyrir hjálparstarfi í Nepal.

Fram kemur í tilkynningu að söfnun fer þannig fram að spilarar EVE Online geta látið fé af hendi rakna til hjálparstafsins í Nepal með gjaldmiðlinum PLEX (Pilot Licence Extension), sem er annar af tveim gjaldmiðlum EVE heimsins sem spilarar leiksins nota (hinn ber nafnið ISK). Raunvirði hvers PLEX er um 15 bandaríkjadollarar og sér CCP um að koma því fé sem spilarar leiksins safna yfir í bandaríkjadollara og síðan til Rauði krossins á Íslandi, sem stendur fyrir neyðaraðstoð í Nepal og styður alþjóðlegt hjálparstarf á svæðinu.

Þetta er í sjötta sinn sem CCP í samstarfi við spilara EVE Online ýtir úr vör söfnunarátaki til mannúðarmála undir slagorðinu PLEX for Good . Áður hafa spilarar leiksins stutt við fórnarlömb flóða í Pakistan, jarðskjálftana á Haítí, fellibylsins Katrina í Bandaríkjunum, jarðskjálfta og flóða í Japan og fellibylsins sem skók Filipseyjar fyrir tveimur árum um alls 45 milljónir króna (yfir 340.000 bandaríkjadala). Met var slegið í síðustu söfnun fyrir íbúa Filipseyjar þegar rúmlega 22 milljónir króna söfnuðust.

Hermann Ottósson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi, segir þakklætið fyrir viðleitni CCP og samfélags EVE Online vera ólýsanlegt. Rauði krossinn á Íslandi sé stoltur að eiga slíka bakhjarla sem CCP. Slíkt samstarf sé ómetanlegt í neyðarástandi á borð við það sem ríkir nú í Nepal.

Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP segir fyrirtækið vera afskaplega ánægt með að geta tekið þátt í að styðja við gríðarlega mikilvægt hjálparstarf Rauða krossins á svæðinu og geta búið til þennan vettvang fyrir spilara EVE Online til að láta gott af sér leiða. En fyrst og fremst sé það stolt af spilurum leiksins fyrir að rétta íbúum Nepal hjálparhönd með þessum hætti. Spilarar EVE online hafa gefið hátt í 9 milljónir króna til hjálparstafsins sem er hreint ótrúlegt, og líklegt er að sú tali hækki á næstu dögum. Hér sannast það sem oft er sagt um þann samhug sem ríkir meðal spilara EVE Online, þó það ríki vissulega mikil samkeppni í leiknum sjálfum og þar séu háð stríð og orustur, þá sé samvinna og samstarf eitt af lykilatriðum leiksins - sem og í því samfélagi sem í kringum hann þrífst.