Skv. frétt sem birtist á leikjavefnum Gamespot hefur netleikurinn EVE Online, sem framleiddur er af íslenska fyrirtækinu CCP, verið afar vel tekið í Kína. Leikurinn er nú í sk. 'beta' ferli þar sem hann er prófaður og reyndur á alla lund og er áhugasömum boðin aðgangur að honum án endurgjalds á meðan. Þá var met slegið í upprunalegu útgáfu leiksins þegar rúmlega 30 þúsund spilarar voru tengdir leikjaþjónum EVE Online á sama tímapunkti.

Í febrúar á þessu ári náði CCP að rjúfa 100 þúsund áskrifenda múrinn og hefur fjölgun áskrifenda verið skv. væntingum. Uppsetningin í Kína er aðskilin frá þeim leik sem nú er keyrður, enda óttast CCP t.d. það að sá heimur sem þar er að finna gæti sundrast vegna tungumálaörðugleika. Því mun fyrirtækið halda úti tveimur heimum, einum hér á Vesturlöndum og öðrum í Kína.

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, segir að það hafi verið spennandi að sjá þennan mikla og góða árangur strax á fyrsta degi opnunar í Kína. Nú verði haldið áfram að vinna í leiknum og gera hann enn meira aðlaðandi fyrir spilara um allan heim.