Kínverski fasteignarisinn Evergrande er orðið greiðsluþrota samkvæmt lánshæfisfyrirtækinu S&P Global. Evergrande ber nú einkunnina valkvæmt greiðslufall (e. selective default) hjá S&P, hugtak sem notað er yfir fyrirtæki sem eru í vanskilum á tilteknum skuldabréfum, þó ekki endilega öllum. Reuters greinir frá.

„Við metum það svo að China Evergrande Group og fjármögnunararmur félagsins, Tianji Holding Ltd., hafi mistekist að framkvæma vaxtagreiðslur af útistandandi víkjandi skuldabréfum fyrirtækisins sem gefin eru út í Bandaríkjadollurum,“ segir í yfirlýsingu S&P.

Lánshæfisfyrirtækið sagði að Evergrande hafi beðið um að S&P myndi draga nýju einkunnina til baka án þess þó að sýna fram á að félagið hafi staðið við skuldbindingar sínar. „Evergrande, Tianji eða fjárvörsluaðilar hafa ekki gefið út neina tilkynningu eða staðfestingu á stöðu vaxtagreiðslnanna,“ sagði S&P.

S&P fylgir í fótspor lánshæfisfyrirtækisins Fitch sem færði niður einkunnina á skuldabréfum Evergrande í „takmarkað gjaldþrot“ (e. restricted default) í byrjun desember eftir að félagið svaraði ekki beiðnum um upplýsingar varðandi tugmilljóna dala vaxtagreiðslu sem ekki var staðið skil á.

Ótti um gjaldþrot Evergrande, skuldsettasta fasteignafélag heims, hristi upp í hlutabréfamörkuðum heims í haust. Félagið skuldar meira en 300 milljarða dala.