Kínverski fasteignarisinn Evergrande náði ekki að standa skil á 148 milljón dollara vaxtagreiðslu skuldabréfs sem var á gjalddaga í dag. Hluti kröfuhafa hefur fengið greitt en ekki allir. Óttast er að greiðslufallið geti leitt til þess að aðrar skuldir félagsins verði gjaldfelldar og það stefni því í þrot.

Fregnir af bágborinni stöðu Evergrande bárust fyrst í september og höfðu fregnirnar strax áhrif út fyrir landssteina Kína. Skuldir félagsins nema um 300 milljörðum dollara en þar af eru um 19 milljarðar dollara í formi skuldabréfa sem gengið hafa kaupum og sölum á alþjóðlegum mörkuðum.

Á vef Reuters er sagt frá því að greiðslur sem voru á gjalddaga í dag hafi ekki skilað sér til allra sem rétt áttu á þeim. Rétt er þó að geta þess að síðast þegar sambærileg staða var uppi þá skiluðu greiðslur til erlendra kröfuhafa sér degi síðar en til kröfuhafa heima fyrir.

Verði það niðurstaðan að félagið falli liggur fyrir að áhrifin á kínverska hagkerfið, sem er hið næststærsta í heiminum, munu verða umtalsverð og viðbúið að það teygi sig út fyrir landssteinana. Þó er ekki loku fyrir það skotið að félaginu takist að raka saman fjármunum til að forða falli.