Raftækjaframleiðandinn EVGA, sem helst er þekktur fyrir framleiðslu skjákorta í samstarfi við og eftir forskrift tæknirisans Nvidia, hefur sagt upp samstarfinu og sagt skilið við skjákortsbransann.

Forsvarsmenn þess fyrrnefnda tóku sérstaklega fram að ákvörðunin byggði ekki á rekstrarlegum forsendum sem slíkum, heldur væri um prinsippmál að ræða vegna viðvarandi lítilsvirðandi og óásættanlegrar framkomu af hálfu Nvidia.

Meðal þess sem Nvidia gerir kröfu um yfirráð að hluta eða öllu leyti yfir hjá samstarfsaðilum sem framleiða kort eftir forskrift þeirra er verðlagning kortanna, sem þeir fá að sögn ekki upplýsingar um fyrr en þær eru kynntar almenningi. Þetta segir EVGA gera þeim afar erfitt fyrir að aðgreina sig frá keppinautum.

EVGA skipar sér í hóp virtustu og þekktustu framleiðenda skjákorta Nvidia í dag. Þar starfa yfir 250 manns og veltan jafngildir ríflega 10 milljörðum króna árlega, að miklum meirihluta vegna sölu skjákorta sem standa undir um 80% tekna.

Þrátt fyrir það stendur ekki til að hefja samstarf við helsta – og í raun eina í dag – keppinaut Nvidia, AMD, né heldur örgjörvaframleiðandann Intel sem boðað hefur væntanlega innkomu sína á skjákortsmarkaðinn.

Ekki verði heldur leitað á ný mið hvað vöruúrval varðar, heldur muni fyrirtækið einfaldlega halda áfram framleiðslu aflgjafa og annarra tölvuí- og aukahluta. Þrátt fyrir það sagði Andrew Han framkvæmdastjóri EVGA Í samtali við YouTube-miðilinn Gamers Nexus, sem fyrst greindi frá, að ekki yrði ráðist í hópuppsagnir.