Nýr fjármálaráðherra Grikklands, Evklíð Tsakalotos, afhjúpaði fyrir mistök minnisblað í aðdraganda fundar í Brussel í dag. Myndir náðust af minnisblaðinu, sem virðist rekja uppruna sinn til hótelherbergis. Á því virðast ekki vera nein sérstök leyndarmál, en þó viðkvæmar upplýsingar um hugrenningar innan samninganefndar Grikkja.

Athygli vekur að minnisblaðið er skrifað á ensku. Tsakalotos er reyndar sagður tala ensku betur en grísku, en hann fæddist í Hollandi og ólst upp í Bretlandi þar sem hann stundaði nám við Oxford-háskóla. Tsakalotos tók við starfi fjármálaráðherra í gær og viðurkenndi þá að finna fyrir stressi í ljósi þess ástands sem hann er að taka við sem fjármálaráðherra Grikklands.

Á myndinni sem um ræðir sést að minnisblaðið lá samsíða blárri möppu í vinstri hendi Tsakalotos. Ef til vill hefði verið heppilegra fyrir hann að snúa blaðinu hinsegin, þannig að það sneri að möppunni. Evklíð Tsakalotos á frægan nafna sem uppi var fjórum öldum fyrir Krist og er oft titlaður faðir rúmfræðinnar. Evklíð rúmfræðingur fjallaði einmitt mikið um sjónarhorn í skrifum sínum.