Nú, þegar blikur eru á lofti í efnahagslífi þjóðarinnar og heimsins, hefur kastljósið enn og aftur beinst að lögeyri Íslendinga, krónunni. Sú hugmynd, sem reyndar er ekki ný af nálinni, að kasta krónunni og taka upp annan gjaldmiðil, hefur fengið byr undir báða vængi.

Um 63% fyrirtækja innan Viðskiptaráðs vilja að ný mynt verði tekin upp, en 23% eru því andvíg. Þar horfa menn helst til evrunnar, enda er helmingur utanríkisviðskipta okkar við ríki innan myntbandalags Evrópu, EMU.

Hafa verður í huga að núverandi hagstjórnarvandi verður ekki leystur með því að taka upp evru. Ef ákveðið verður að evruvæðast einhliða er ljóst að sú breyting verður að hafa þó nokkurn aðdraganda, því ef vextir á Íslandi yrðu skyndilega lækkaðir úr 13,75% í 4% hefði það gríðarleg þensluáhrif í samfélaginu og sá stöðugleiki sem þó er hér hyrfi eins og dögg fyrir sólu. Því þyrfti að ná verðbólgu, og síðan vöxtum, niður með markvissum aðgerðum Seðlabanka og hins opinbera.

Hið opinbera yrði að draga úr útgjöldum sínum og umsvifum til að ýta ekki undir verðbólgu og Seðlabanki að lækka stýrivexti smám saman þannig að vaxtastigi EMU yrði náð. Þessi aðlögunartími tæki væntanlega þó nokkur misseri.

Nánari umfjöllun um þetta mál er í helgarblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nú þegar, frá kl. 21:00 í kvöld, lesið blað morgundagsins á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .