Upptaka evrunnar varð ekki til þess að auka viðskipti innan Evrópusambandsins og vonir um að innri markaður Evrópusambandsins yrði til þess að efnahagslíf álfunnar yrði virkara, nýjungagjarnara og samkeppnishæfara hafa ekki ræst. Þessi áfellisdómur yfir sambandinu kom fram í ræðu Joaquín Almunia, framkvæmdastjórnarmanni ESB með peningamál á sínu forræði, sem hann hélt á ráðstefnu evrópskra fjármálastjóra í liðinni viku.

Á ráðstefnunni, sem haldin var í Lundúnum, harmaði Almunia að Evrópusambandið væri enn mun laustengdari efnahagsheild en Bandaríkin. Til vitnis um þetta nefndi hann að hlutfall verslunar yfir ríkjamörk innan Bandaríkjanna gagnvart þjóðarframleiðslu væri 70% hærra en hlutfall milliríkjaverslunar innan Evrópsambandsins gagnvart þjóðarframleiðslu. Í þeim útreikningi eru hin nýju ESB-ríki í Austur-Evrópu þó ekki talin með, heldur aðeins hin 15 þróuðu hagkerfi Vestur-Evrópu, sem voru í sambandinu fyrir 2004. Hið raunverulega hlutfall milliríkjaverslunar gagnvart þjóðarframleiðslu innan sambandsins alls er því enn lægra.

Að sögn Almunia hefur hægst verulega á samþættingu evróska markaðarins hin síðari ár. Upptaka evrunnar hafi að vísu glætt viðskipti innan evrusvæðisins, en hægst hafi á milliríkjaverslunar innan ESB frá aldamótum. "Við vitum að Evrópusamrunanum er langt í frá lokið og nýta má innri markaðinn betur," sagði Almunia og hvatti til þess að Evrópusambandið léti af einangrun sinni, taka yrði tillit til ytri þátta. "Við vitum hins vegar að þær hindranir, sem eftir eru í vegi Evrópusamrunans, verður æ erfiðara að uppræta." Benti hann til dæmis á að mun auðveldara væri að stofna fyrirtæki vestanhafs en í Evrópu. Ekki síðra áhyggjuefni væri að vöxtur þeirra fyrirtækja, sem á annað borð kæmust á legg, væri mun örari í Bandaríkjunum en Evrópu.

Þessa þróun sagði Almunia að mætti meðal annars rekja til ófullkominna fjármálamarkaða, sem gerðu frumkvöðlum erfiðara fyrir við að nálgast fjármagn, sem aftur ýtti undir stöðnun. Almunia taldi ljóst að Evrópusamruninn hefði hökt í þjónustugeiranum og ekki ætti það síst við um fjármálaþjónustu. Þar þyrfti að grípa til sérstakra ráðstafana en í því samhengi varaði hann þó við að regluverk hamlaði samrunanum á sumum sviðum.