Það hefur gengið á ýmsu í lífi evrunnar frá því hún var tekin upp. Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að þegar hún fór formlega á markað árið 1999 stóð hún í 1,17 gangvart Bandaríkjadal og féll svo niður í 0,84, en hefur í kjölfar vaxandi fjárlagahalla í Bandaríkjunum og lánakrísunnar  verið nálægt 1,60 gagnvart dalnum undanfarnar vikur.

„Evran hefur náð góðri fótfestu meðal gjaldmiðla og er verðugur keppinautur við Bandaríkjadal sem helsti gjaldmiðill alþjóðahagkerfisins. Þótt flestir seðlabankar í heiminum hafi yfirleitt í handraðanum tvöfalt meira af dölum en evrum og OPEC ríkin verðleggi enn olíuna í dölum eru nú meira af alþjóðlegum skuldabréfum gefin út í evrum en dölum,“ segir í Morgunkorni.

Sameiginlegir stýrivextir henta ekki öllum

Greining Glitnis segir að samþætting hagkerfa á evrusvæðinu hafi ekki gengið eins vel og vonast var til og þess vegna henti þeir sameiginlegu stýrivextir sem Seðlabanki Evrópu setur aðildarríkjunum misjafnlega vel eftir því hvar ríkin eru stödd í hagsveiflunni.

„Þetta þýðir t.d. að Spánverjar, sem kljást nú við samdrátt á húsnæðismarkaði og í byggingariðnaði, geta ekki lækkað vexti líkt og Bandaríkin hafa gert í svipaðri stöðu. Ítalía hefur þurft að láta af hefðbundnum gengisfellingum til hjálpar útflutningsgreinum sínum með þeim afleiðingum að hagvöxtur í landinu nær sér ekki á strik. Hins vegar styður Þýskaland það markmið evrópska seðlabankans að halda verðbólgu niðri með háum stýrivöxtum, enda hefur Þjóðverjum gengið vel að halda samkeppnisstöðu sinni með aðhaldi í kostnaði,“ segir í Morgunkorni Glitnis.

Ekki endilega evrunni að þakka

Einnig kemur fram að atvinnuleysi dróst saman á evrusæðinu úr 9% árið 1999 í 7% árið 2007 og meðalfjárlagahalli landa innan myntbandalagsins hafði aldrei verið lægri en í fyrra þegar hann nam 0,6% af vergri landsframleiðslu evrusvæðisins.

„Hins vegar er ekki endilega víst að þessi jákvæða þróun sé evrunni að þakka, þó fylgjendur Myntbandalags Evrópu séu líklega þeirrar skoðunar. Fylgjendur evrunnar eru væntanlega einnig þeirrar skoðunar að sameiginlegt mynt hafi fengið þjóðir til að taka til í hagkerfum sínum þar sem þær geta nú ekki lengur bjargað sér út úr kröggum með gengisfellingu, en þetta er umdeilt líkt og svo margt annað sem evruna snertir,“ segir Greining Glitnis í Morgunkorni sínu.